Friday, August 6, 2021

Nýtt blogg - leanlifstill.blogspot.com

 
Ætla að byrja aftur að blogga á leanlifstill.blogspot.com. Sé ykkur vonandi þar 💖



Wednesday, November 7, 2018

Hvað er að frétta?

....allt það ljúfa og létta! ;)



Miðað við traffíkina á síðunni (þó svo að það hafi ekki komið póstur síðan í mars 2017) þá munu einhverjir hugsa með sér af hverju ég er að setja inn póst eftir 1,5 ára fjarveru?

Þetta eru góð spurning sem ég ætla bara að svara strax. Mér finnst bæði þægilegt og skemmtilegt að blogga um það sem ég er að gera. Ég nota þessa síðu aðallega til þess að halda utan um það sem við fjölskyldan erum að bralla og er búin að gera það síðan 2010 með hléum. Stundum er ég í góðum gír og stundum ekki. Í þetta sinn tók það 1,5 ár að koma mér aftur í gírinn (segi ykkur meira um það síðar).

Það eru spennandi tímar framundan og mig langar til að blogga um þá. Ef það er einhver sem hefur áhuga á því að fylgjast með þá er það líka gaman. Planið er að vera líka eitthvað á Snapchat og/eða Instagram og þið finnið mig þar undir "heimilisfruin".

Skál fyrir þessu! :)

Friday, March 17, 2017

Fjölskyldudagatalið mitt

Eins og ég sagði frá á snappinu í gær (Heimilisfruin) þá keypti ég í fyrra fjölskyldudagatal sem reyndist okkur ágætlega. Mig langaði til að hafa þannig aftur í ár en það voru nokkrir hlutir sem mér fannst vanta á dagatölin sem eru í boði og því bjó ég til mitt eigið. Ég lét prenta það út og gorma í Háskólaprent en kostnaðurinn var í kringum 3000 kr.


Svona lítur dagatalið mitt út en eins og flest öll svona dagatöl þá er það með dagsetningar og sérreiti fyrir alla fjölskyldumeðlimi. Þar að auki bætti ég við tveimur reitum, "matseðill" og "annað".

Mér finnst gott að skipuleggja kvöldmatinn fram í tímann svo í staðin fyrir að hafa það á sér blaði þá kemur það sér vel að hafa þetta allt á sama stað. Undir annað setti ég hátíðisdaga hvers mánaðar og þar undir fara líka viðburðir sem eiga við alla meðlimi fjölskyldunnar eins og t.d. afmælisdagar, samverustundir og veislur.

***

Það sem mér fannst þó aðallega vanta á önnur fjölskyldudagatöl (og var helsta ástæðan fyrir því að ég bjó til mitt eigið) var stundaskrá þar sem fylla má inní það sem telst til vikulegrar rútínu. Þetta eru hlutir eins og t.d. íþróttaæfingar, skólasund, leikfimi og spilakvöld. Kosturinn við að hafa þetta er ekki bara sá að maður sleppur við að fylla þessa hluti inná dagatalið 4-5x heldur nýtist plássið betur enda eru reitirnir ekki það stórir.

***

Það voru margir sem spurðu hvort að þeir gæti nálgast dagatalið einhversstaðar. Skjalið má finna í linknum hér að neðan. Þetta er Excel-skjal svo þið getið breytt því og bætt eftir ykkar þörfum. Þegar ég var að gera þetta þá vann ég dagatalið í Excel og færði það svo yfir í A3 Word skjal. Ég mæli með því að fara með þetta í Háskólaprent en skv. mínum (litlu) rannsóknum þá er það ódýrasti staðurinn.

Sjá skjalið HÉR.

***

Og að öðru, af hverju er ekkert fyllt inn fyrir janúar fyrst að það er kominn mars?

Jú, ástæðan er sú að ég er að keyra mig í gang eftir 9 mánaða sófasetu. Eins og ég sagði í póstinum hér að neðan þá hef ég lítið sem ekkert gert tengt skipulagi, tiltekt, matreiðslu/bökun eða húsasmíðum undanfarið og því nóg af verkefnum framundan.

Ég ætla að vera dugleg að snappa það sem ég er að gera á HEIMILISFRUIN og blogga svo um það helsta. Mig langar að gera þetta svona sem hvata fyrir mig en það er bónus ef það hjálpar fleirum. Ég var t.d. mjög þakklát fyrir viðbrögðin við síðustu færslu og svo líka peppið sem ég fékk á snappinu. :)
 
 
...en svona til að hafa það á hreinu þá er ég búin að fylla inn í skjalið fyrir mars!

***

Tuesday, February 28, 2017

Barnaherbergi - málning

Þegar von er á litlu barni er eitt sem skiptir öllu máli að mínu mati og það er góður svefn. Þetta hljómar kannski öfugsnúið þar sem lítil kríli þýða oftast minni svefn en við Siggi höfum alltaf lagt mikla (ALLA) áherslu á það að börnin okkar sofi vel og eftir strangri rútínu - já, alveg frá því að þau koma heim af fæðingardeildinni. Við höfum þurft að fórna ýmsu til að ná þessu markmiði en að okkar mati þá gengur allt svo miklu betur ef svefninn er í lagi og því viljum við frekar eiga erfiða 4-6 mánuði en 4-6 ár!
Þegar yngri strákurinn okkar var fæddist fór hann beint af fæðingardeildinni og í sitt herbergi. Hann svaf aldrei inni hjá okkur og það gekk svona líka svakalega vel. Þessvegna kom ekkert annað til greina þegar von var á öðru kríli en að það færi beint í sérherbergi. Þetta þýddi smá tilfærslu hjá hinum krökkunum og eru nú strákarni saman í herbergi (meira um það síðar).
Við höfum því verið að vinna í því síðustu vikur að breyta gamla herberginu hans Bjarka í ungbarnaherbergi. (HÉR má sjá myndir af herberginu hans Bjarka eins og það var þegar hann fæddist.)
Við byrjuðum á því að mála herbergið og fannst Sigga ég toppa mig í þetta sinn hvað varðar flækjustig. :) En þetta tókst á endanum og mikið sem ég er ánægð með útkomuna! <3

Fyrir:



Fyrst var málað hvítt og teipað:



Svo var málað með "Siggagráum" yfir allt:
(Siggagrár er litur sem við létum sérblanda og fæst í Slippfélaginu)


Og að lokum var málningarteipið tekið af:

Eftir:



***

Löööng pása

Síðustu mánuðir hafa verið frekar erfiðir hér á bæ. Ég komst að því í júní í fyrra að ég væri ólétt og frá 3 viku hef ég verið meira og minna ómöguleg. Nú er ég komin á tíma (sett 6.mars), farin að sjá að þetta mun taka enda og að fljótlega geti ég byrjað að hreyfa mig aftur!


Verkefnin sem bíða mín eru óteljandi enda hef ég verið að mestu föst í sófanum síðan í júní. Ég hlakka mikið til að koma öllu og öllum í (nýja) rútínu enda líður mér miklu betur þegar ég hef góða yfirsýn á það sem er í gangi hjá fjölskyldumeðlimum og hér heima.

Verkefnalistinn er enn í mótun en þetta er það helsta sem mig langar til að gera þegar ég fæ orkuna aftur:

  • Þrífa allt hátt og lágt (enda var ekki gerð nein jólahreingerning hér síðustu jól)
  • Taka alla skápa í gegn og koma á einhverju skipulagi (það fauk út um gluggann fyrir löngu)
  • Fara yfir allt og "henda - gefa - geyma" (declutter)
  • Klára barnaherbergin (við þurfum að breyta ýmsu út af krílinu)
  • Klára hjónaherbergið
  • Klára loftið á efri hæðinni
  • Klára sjónvarpsholið
  • Setja hurð á skrifstofu
  • Byrja á baðinu uppi
  • Koma þrifum aftur í rútínu
  • Gera skipulag fyrir alla fjölskyldumeðlimi
  • Plana fjármálin m.v. breyttar forsendur (fæðingarorlof!)
  • Undirbúa skírn
  • Koma mér af stað aftur (hreyfing og mataræði)
  • Skipuleggja matarinnkaup - Byrja aftur með matseðil vikunnar
  • ....Og að lokum vera duglegri að blogga um hlutina því mér finnst svo gaman að eiga þetta ferli okkar í máli og myndum. :)

Það er þó ekki þar með sagt að ekkert hafi gerst á þessu tæpa ári enda kom hreiðurgerðin af fullum krafti þó svo að ég hafi ekki haft orku til að taka 100% þátt í hlutunum. Ég er sem betur fer vel gift og krakkarnir duglegir að hjálpa svo við erum byrjuð á fullt af skemmtilegum verkefnum sem þarf að klára (sbr. listann hér að ofan). Meira um það síðar!



 
***

Wednesday, February 17, 2016

Lífstílsblogg og rakakrem

Það er við hæfi að skella inn einu litlu bloggi í dag - svona í ljósi umræðunnar. :)

Ég er reyndar búin að ætla að setja þetta inn lengi en aldrei gefið mér tíma í það. Það vill nefnilega svo skemmtilega til að mig langar að segja ykkur frá snilldar rakakremi sem ég var að uppgötva (nei ég fékk það ekki gefins, ég borgaði það sjálf :) ).

Þannig er mál með vexti að ég tók upp á því að fá exem haustið 2013 og síðan þá hef ég verið í tómu tjóni í húðinni. Eftir alltof margar læknisheimsóknir hitti ég á æðislegan húðlækni sem er búin að hjálpa mér mikið en ég hef ekki enn náð því að verða góð í húðinni og sérstaklega ekki í jan/feb þegar það er mjög kalt úti. Ég held að ég sé búin að prófa öll krem sem í boði eru en það hefur aldrei tekið alla "blettina" (konan í apótekinu var farin að vorkenna mér svo mikið að hún var farin að panta fyrir mig prufur).

Ég var eiginlega búin að gefast upp á leitinni og ákvað að kaupa bara eitthvað náttúrulegt rakakrem til að hafa inn á milli steranna. Ég skellti mér á Heimkaup (heldur ekki spons, ég bara gleymdi þessu alltaf og endaði á að panta í tíma í skólanum) og valdi "bara eitthvað rakakrem". Viti menn - það bara virkar svona líka vel! Þurrkblettirnir eru alveg horfnir og ég er bara í ágætu standi miðað við exem, aldur og fyrri störf.

Það má samt taka það fram að ég er ekki 100% góð í húðinni en þó töluvert betri en ég hef nokkurntíman verið á þesum tíma!

Ef þetta getur hjálpað einhverjum sem er með exem eða bara í leit að góðu og náttúrulegu rakakremi þá er þetta kremið og það kostar 3.190 kr.:


***


Thursday, June 25, 2015

2 ára afmæli Bjarka

Þá er komið að 2 ára afmæli Bjarka. Þemað í afmælinu voru dýr þar sem þau voru í miklu uppáhaldi á þessum tíma.


Kakan:



Sjá nánar HÉR hvernig piñata kakan var gerð.

Aðrar veitingar:




Afmælið:

 



Eins og í öllum afmælunum hans Bjarka vorum við mikið úti. Við grilluðum líka pylsur og hamborgara ofan í gestina - enda afmælið haldið á virkum degi, eftir vinnu. :)




***