Ég fékk eitt fullorðinsstig í viðbót í gær þegar ég bauð nokkrum hressum stelpum heim til mín á Tupperware kynningu.
Það var ótrúlega gaman og við keyptum alveg fullt af sniðugum hlutum.
Þetta er eitt af mínum uppáhalds:
Hvað veitingar varðar þá var ég beðin um uppskriftir úr öllum áttum (sem hlýtur að vera hrós) og því ætla ég að henda þeim hingað inn.
Ég s.s. bauð upp á klassískan aspas/skinku brauðrétt og svo súkkulaðiköku með marskremi (sem ég bjó til sjálf í gær s.s. uppskriftina) og svo hvítsúkkulaðihindberjaostaköku.
***
Súkkulaðikaka með marskremi
Þegar ég var lítil þá bakaði mamma mín alltaf Betty Crocker súkkulaðikökur. Þetta varð eiginlega til þess að mér finnst Betty bara ótrúlega góð og ekki er verra að hún tekur bara 20 min! Kakan sem ég bakaði í gær var ekki Betty heldur bróðir hennar hann Duncan Hines (fæst í Mega Store og kostar bara 249 v.s. B.C. sem kostar um 500 kr!).
Þegar maður er með einfalda köku þá hefur maður bæði tíma og "bragðpláss" til að leggja smá vinnu í kremið (því það er það besta ekki satt?). Ég prófaði fyrir stuttu marskrem sem ég fann á netinu og ég var ekki sátt við það. Kremið var með of miklum vanilludropum og lítið marsbragð af því þannig að ég ákvað að búa bara til mitt eigið krem sem er svona (tvöföld uppskrift):
450-500 gr smjör
500 gr flórsykur
Hrært saman þangað til það er orðið létt og ljóst.
4 marsstykki
40-50 ml rjómi
Á meðan ég er að hræra smjörið og flórsykurinn þá bræði ég marsið í potti með rjómanum. Þegar þessi gómsæta blanda er orðin volg þá blanda ég henni útí smjörkremið rólega.
Ég muldi líka 2 marsstykki með töfrasprota og setti út í kremið til að fá smá "bite to it" en það þarf ekki.
Og svona endaði þessi gómsæta kaka
Ég gleymdi að taka mynd þannig að ég tók þessa í flýti (eins og sést á myndatökunni)
***
Bökuð ostakaka með hvítu súkkulaði og hindberjum
Þessa köku fann ég með því að "googla" setninguna "best cake ever" fyrir svona ári síðan. Þetta er uppáhalds kakan mín og ég held án gríns að ég fái aldrei nóg af henni. :)
Upprunalegu uppskriftina má sjá HÉR
Eins og ég geri hana:
Ég byrjaði á því að fara í IKEA og kaupa mér ÞETTA mót (s.s. lítið og með lausum botni).
Ég spreyja það vel með olíu og svo klippi ég út bökunarpappír sem ég set í botninn en ég læt hann ná aðeins upp (þá er auðveldara að losa hann í lokin).
2 pakka af fjólubláu maryland kexi
70-100 gr smjör
30 gr sykur
Allt sett í mixer (ég reyndar nota alltaf bara töfrasprotann og geri þetta í tveimur skömmtum).
Þetta er botninn á ostakökunni þannig að ég þrýsti þessu vel í mótið og smá upp með hliðum.
250 gr hindber (frosin)
1 tsk kartöflumjöl
3 msk sykur
Ég set hindberin, kartöflumjölið og sykurinn í lítinn pott og hita upp að suðu og læt það malla í 4-5 min. Þegar sósan er tilbúin þá sigta ég hana 1-2x og læt hana kólna
2,5 poki af hvítum súkkulaði doppum frá nóa
120 ml rjómi
Súkkulaðið er brætt í potti með rjómanum og látið kólna.
650 gr rjómaostur (þessi stóri í bláu umbúðunum)
100 gr sykur
3 egg
1 tsk vanilludropar
Ég hræri saman í hrærivél rjómaostinn (sem er mjúkur) og sykurinn. Þegar það er orðið létt þá bæti ég einu eggi útí í einu. Þegar þau eru öll komin út í set ég vanilludropana og helli svo volgri súkkulaðiblöndunni rólega útí og þeyti í ca 3-5 min.
Ég helli helmingnum af rjómaostablöndunni í formið og svo set ég 3-4 msk af hindberjasósunni yfir. Svo helli ég restinni af blöndunni yfir allt og að lokum aftur 3-4 msk af hindberjasósunni ofan á. Ég nota hníf til að búa til mynstur ofan á kökuna og svo skelli ég þessu í ofninn sem er orðinn heitur á 160°C í ca 55-60 min.
Ég skreyti svo kökuna með rjóma og hindberjum.
Verði ykkur að góðu! :)
P.s. ég blogga oftast á kvöldin, rétt áður en ég fer að sofa þannig að ef þið sjáið stafsetningavillur þá megið þið ENDILEGA láta mig vita - Kría, þú líka! ;)
P.s. ég blogga oftast á kvöldin, rétt áður en ég fer að sofa þannig að ef þið sjáið stafsetningavillur þá megið þið ENDILEGA láta mig vita - Kría, þú líka! ;)
***
7 comments:
Þessar veitingar voru SJÚKLEGAR.
Marskreminu verður skellt á næstu köku sem verður bökuð á þessu heimili :)
Ahahahahahaha!!!! Já ég skal láta þig vita ef ég sé einhverjar villur:)...annars les ég þetta blogg mér til skemmtunar, ekki öðrum til ama:)
Sigtar þú hindberin sem sagt frá?
Er í lagi að gera þessa köku deginum áður en hún er borin fram?
Rosa girnilegar kökurnar!
Ég sigta steinana sem koma af hindberjunum frá þannig að sósan verði silkimjúk. Það er líka gott að bera afganginn af sósunni fram með kökunni.
En sé að ég gleymdi að gefa tips varðandi bakaðar ostakökur almennt.
1. Það er mjög gott að hafa ofnskúffu neðst og setja vatn í hana þannig að það sé "raki" í ofninum á meðan kakan er að bakast. Þá verður kakan meira "djúsí"
2. Það er líka gott að gera þessa köku um kvöld og leyfa henni að standa í ofninum (slökktum og óopnuðum) yfir nóttina og svo setja hana í kæli um morguninn með plastfilmu yfir. Þannig nær hún að setjast og verða stinn.
Svo geymir maður hana á borði í ca 30 min áður en maður ber hana fram og þá er mjög auðvelt að ná henni úr og færa hana á disk.
Þessi kaka er geðveikt góð í svona viku ef hún er geymd í ísskáp..mér finnst hún best daginn eftir! :)
Takk kærlega fyrir upplýsingarnar.... er að fara að baka hana :)
Frábært bloggið hjá þer!
Kv.
K.
Ótrúlega leiðinlegt að missa af þessu!!
er svo að fara að prufa bestu köku ever! - fæ vatn í munn við að lesa þetta :) - en hey.... skiptir máli hvaða ljósa súkkulaði þú notar? - því mér finnst þau mis góð eftir tegundum..:)
Post a Comment