Ég skellti mér á námskeið sem heitir "Velkomin í núið" með vinkonu minni. Þetta er 8 vikna námskeið haldið af þremur sálfræðingum þar sem fólki er kennt að lifa í núinu.
"Árvekni, stundum kallað gjörhygli, byggist á ævagömlum hugleiðsluaðferðum búddískrar sálfræði. Í nútíma árvekniþjálfun er tvinnað saman aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar og sálfræði austrænnar visku. Margar rannsóknir hafa sýnt fram á að árvekniþjálfun hefur jákvæð áhrif á almenna vellíðan, bætir heilsufar, dregur úr streitu, kvíða og depurð. Þjálfunin felst m.a. í því að læra að þekkja hugsanir sínar, tilfinningar og það sem við finnum fyrir í líkamanum. Áherslan er á að læra að nema staðar „hér og nú“, láta af sjálfstýringu hugans og sættast betur við það sem er. Með fræðslu, stuttum hugleiðsluæfingum og annarri hugarþjálfun er markmiðið að öðlast meiri hugarró og njóta betur líðandi stundar".
Sjá nánar HÉR.
Ég ákvað að fara á þetta námskeið út af áramótaheitinu mínu: að setja heilbrigði og hollustu í fyrsta sæti, bæði af líkama og sál. Mig hefur alltaf langað til að læra að hugleiða og þetta námskeið snýst að stórum hluta um hugleiðslu. Ef ég næ að koma þessu inn í rútínuna á þessu ári þá verð ég voða glöð. Batnandi fólki er best að lifa.
Ég er reyndar bara búin að fara í einn tíma af átta en þetta byrjar vel og ég er ekki frá því að ég sofi betur eftir að ég byrjaði að hugleiða 2x á dag.
Ég læt ykkur vita hvernig gengur.
***
1 comment:
Áhugavert! Ég held að þetta sé námskeið sem Dóra frænka mín stendur fyrir, hlakka til að heyra hvernig þessu framvindur, hefði sjálfur skellt mér ef ég væri ekki í öðru máli núna :)
Post a Comment