Monday, September 8, 2014

Heimilisfrúin í Fréttablaðinu

Skemmtileg tilviljun að um leið og við kláruðum stofuna ákvað Fréttablaðið að gefa út sérblað um stofur. Í kjölfarið hafði Sólveig Gísladóttir blaðamaður samband við mig og á fimmtudaginn var myndataka.
 
Ég er mjög ánægð með greinina og finnst hún gefa mjög góða mynd af þessu "verkefni" okkar.
Ég verð samt að fá að nefna það að stólinn gráa gaf mamma mér í afmælisgjöf en ekki siggi.
 

Ef þú ert að koma hingað inn í fyrsta skipti þá býð ég þig velkominn/na og endilega vertu vinur síðunnar á Facebook -> sjá tengill hér til hliðar. :)

 
Hér má svo sjá greinina: 

 

Í betri stofu Heimilisfrúarinnar

 
Hildur Arna Hjartardóttir heldur úti bloggsíðunni heimilisfruin.blogspot.com. Þar leyfir hún fólki að fylgjast með hvernig hún og eiginmaður hennar taka fyrir herbergin í húsinu sem þau byggðu í Skerjafirði fyrir nokkrum árum.
 
„Maðurinn minn er orðinn rafvirki, pípari og smiður eftir þessa lífsreynslu,“ segir Hildur glettin um eiginmanninn Sigurð Jens Sæmundsson. Frá árinu 2008 hafa þau hjónin byggt hús og búið sér og börnum sínum þremur heimili í Bauganesi. Hildur er uppalin í Skerjafirði og vildi búa þar með fjölskyldu sinni. „Eina leiðin sem við sáum var að byggja sjálf. Við bönkuðum því uppá hjá nágrannanum og spurðum hvort við mættum kaupa framgarðinn hans,“ segir Hildur glaðlega, en þau hjónin teiknuðu húsið sjálf í exel en fengu hjálp tækniteiknara á lokasprettinum. 
Fjölskyldan flutti inn 2009 í fremur hrátt húsnæði og Hildur og Sigurður ákváðu að taka eitt herbergi fyrir í einu. Þau gera flest allt sjálf og eru skipulögð í öllum framkvæmdum. „Við gerum þetta eftir því sem við náum að safna okkur,“ segir Hildur og lýsir því að ýmislegt í húsinu hafi verið keypt til bráðabirgða á Bland og bíði þess að verða skipt út þegar tækifæri gefist. Hún heldur úti blogginu heimilisfruin.blogspot.com um framgang þessa stóra verkefnis og birtir myndir og lýsingar af því sem er á döfinni hverju sinni.
 

Fjölskyldurými

Stofan er eitt þeirra herbergja sem er tilbúið en hún er í opnu rými ásamt borstofu og eldhúsi. „Stofan varð að vera flott og fín fyrir mömmuna en samt þannig að krakkarnir gætu verið þar líka,“ segir Hildur en fjölskyldan ver löngum stundum saman í þessu opna rými. Hildur segist kunna að meta fallega hluti en hins vegar þurfi þeir ekki endilega að vera dýrir. „Ég vel það sem mér finnst fallegt og er sama hvaðan það kemur,“ segir Hildur sem týmir ekki að eyða of miklum fjárhæðum í húsgögn. „Við viljum heldur geta farið saman í frí.“

***

3 comments:

Rósir og rjómi said...

Flott og verðskulduð umfjöllun!

Rósir og rjómi said...

Flott og verðskulduð umfjöllun!

Anonymous said...

Ekkert smá flott! Kv Guðrún Lilja