Monday, July 14, 2014

Eitthvað undrafagurt, eitthvað ókeypis.

(Fékk þetta sent fyrir löngu og geymi þetta í tölvupóstinum mínum sem áminningu.)


Merkileg könnun var gerð á lestarstöð í Bandaríkjunum einn kaldan janúarmorgun. Maður var fenginn til að spila á fiðlu á göngum hennar og viðbrögð fólks voru skráð. Skömmu eftir að maðurinn byrjaði spila, staldraði miðaldra maður við nokkrar sekúndur og hlustaði - en hélt svo leiðar sinnar.

Nokkrum mínútum síðar hætti barn að ganga við hlið móður sinnar og horfði á manninn. Mamman togaði óðar í barnið og forðaði því frá manninum og fiðlunni. Einhver henti pening í hattinn. 

Annað barn stoppaði og mamman togaði óðar í gemlinginn. Fleiri smápeningar flugu í hattinn en varla nokkur maður lét á sér sjá að hann væri að hlusta eða nyti tónlistarinnar.

Eftir 45 mínútur af samfelldum leik, hætti maðurinn að spila. Lófatak heyrðist ekki, enginn kallaði BRAVO. Maðurinn taldi peningana, hann hafði fengið 32 dollara. Félagsfræðitilraun Washington Post-blaðsins var lokið.

Hún sýndi hverju fólk missti af. Maðurinn sem spilaði var Joshua Bell, einn mesti fiðlusnillingur heims. Hann hafði leikið 6 verk eftir Bach sem öll þykja einstaklega falleg og tæknilega erfið. 

Fiðlan hans kostaði 3,5 milljónir dollara (ekki króna!).

Tveimur kvöldum áður hafði hann fyllt tónleikasal í Boston þar sem hver miði hafði kostað 100 dollara. - Af hverju stoppaði enginn til að njóta?

Af hverju þakkaði honum enginn? Voru allir á hraðferð á leið í vinnu.

Örugglega einhverjir - en fjandakornið ekki allir.

Var ekki líklegra að fólk gerði ósjálfrátt ráð fyrir að spilarinn væri auðnuleysingi , fiðlan gargan og best væri að forða sér frá betlaranum.

Vissulega lærum við að meta aðstæður og draga af þeim ályktanir sem við notum til að meta stöðu okkar, öryggi og til að taka afstöðu. En þýðir það að við þurfum að fá gjafir heimsins í pakka á réttum stað og stund til að geta þegið þær? Af því fólkið var í neðanjarðarlestarstöð en ekki tónleikasal skynjaði það ekki fegurðina í tónlistinni. Af því tónarnir bárust óumbeðnir og kostuðu ekkert hurfu þeir með dragsúgnum og náðu ekki eyrum.

Einhversstaðar sá ég skrifað að þeir sem kæmu hvað best út úr langri pínuvist eins og t.d. í fangabúðum nasista í seinni heimsstyrjöldinn ættu eitt sameiginlegt. Það var að hafa getað útilokað ljótleikann fáein augnablik í einu. Að geta sameinast fegurð sólargeislans sem braust inn um rifu í veggnum. Notið andvarans við húshorn og fundið ferskleika fífilsins sem spratt í haugnum. Hverju erum við að missa af í daglegu lífi sem kostar ekkert en auðgar það margfalt ef við aðeins höfum augu og eyru opin?

Ef við aðeins sleppum samanburðinum við aðra, auglýsingunum og ítroðslunni um hvað við eigum að eiga, hvað við eigum að vera, hvers við eigum að njóta.

Getur það ekki orðið leikur að koma auga á það sem okkur er gefið en enginn hafði tíma til að pakka inn og merkja okkur. - Hvernig væri að byrja núna?

1 comment:

Rósir og rjómi said...

Þörf áminning, takk :-)