Thursday, July 3, 2014

Skreytingar #1

Þemaliturinn í brúðkaupinu var ferskju-bleikur í stíl við kjólana. Þar sem það er næstum því ómögulegt að finna skraut hér á landi í þessum lit (og ekki nægur tími til að panta frá útlöndum) þá reyndum við að vinna út frá því þ.e. finna skraut í litum sem pössuðu við ferskju-bleikan.
 
Til að byrja með keyptum við pappírsskraut (sjá hér) í IKEA sem við hengdum út um allan sal. Við settum það líka við matarborðið en þar festum við það í 10 gasblöðrur. Skrautið sveif upp og niður til hliðar við borðið sem var frekar fyndið. Ástæðan fyrir því að við hengdum þetta ekki upp í band er sú að það mátti ekki nota límband í þessum sal sem takmarkaði aðeins val á skreytingum en reyndi um leið á hugmyndaaflið. Þetta skraut er algjör snilld, ódýrt og með frönskum rennilás.
 
 
Við ætluðum að hafa blöðrur í öllu loftinu en þar sem loftið var svo rafmagnað þá sprungu þær alltaf þegar þær snertu það. Við enduðum því á því að kaupa blöðrufætur (fæst í partýbúðinni) og festum nokkrar saman út um allan sal (sjá á myndinni hér að ofan).
 
Á borðunum vorum við með tréplatta sem hann Siggi minn bjó til. Ég hafði séð þetta á netinu og hélt í alvöru að þetta væri ekkert mál; bara finna tré og saga það í þunnar sneiðar. Til að gera langa sögu stutta þá er það er ekki þannig og þetta tók heilan dag! Að mínu mati var þetta samt vel þess virði þar sem að við eigum núna 13 ótrúlega flotta trébakka og mér fannst þetta sjúklega flott á borðunum! :)
 
 
Borðin voru ca 10 og við settum til skiptis bakka með:
 
* 1 krukku og einum vasa úr IKEA
* 1 krukku og einni flösku 
 
Við fylltum allar krukkur af blómum (rósum og brúðarslöri). Blómin voru keypt í Garðheimum en rósirnar sem við völdum koma á greinum sem þýðir að það geta verið fleiri en ein á hverjum stöngli. Mér fannst það koma alveg ótrúlega vel út, sérstaklega þegar maður er að reyna að spara og nota lítið þar sem þær eru meiri um sig. Þetta var líka alls ekki dýrt þar sem við keyptum blómin í búntum. 
 
Krukkurnar eru venjulegar sultukrukkur sem við festum blúndur á og flöskurnar eru brúnar bjórflöskur (af bjór sem kallast einstök) sem við vöfðum snæri utan um. Snærið fengum við í Garðheimum. 
 
Á bakkana settum við svo glæra plaststeina og sprittkerti og á borðunum voru hvítir dúkar og bleikur löber sem keyptur var í Rekstrarvörum.
 
Við gerðum aðeins öðruvísi skreytingu á háborðið þar sem brúðhjónin sátu en þar bættum vorum við líka með kertaskraut og hjörtu.
 



Einfalt og fallegt!
 
***
 
 
 

No comments: