Friday, August 29, 2014

Pizzasnúðar

Ég gerði þessa pizza snúða í dag eftir að hafa skoðað gamla bloggið mitt (færslan er tekin þaðan). Síðan þá hef ég reynt að taka mig á í mataræði svo ég setti 50/50 hvítt hveiti og fínt spelt. Ég sleppti líka sykrinum. Þetta var voða gott og það er mjög þægilegt að eiga nokkra í frystinum fyrir stelpuna  þegar hún kemur heim úr skólanum.
 
***
 
Ég fékk þessa uppskrift þegar ég var í Hússtjórnarskólanum en kosturinn við hana er sá að mér finnst brauðið svo mjúkt og gott.  Þetta er ótrúlega einföld uppskrift og það er ekkert mál að frysta snúðana og hita í ofni/örbylgjuofni fyrir svöng börn þegar þau koma úr leik-/skólanum. Það er líka ekkert mál að breyta fyllingunni og búa til t.d. kanelsnúða eða skinkuhorn.
 
Deigið:
100 gr. smjör
0,5 lítri mjólk
1 pk. þurrger
60 gr sykur
0,5 tsk salt
900 gr. hveiti (líka gott að nota heilhveiti til helminga)
 
Ég byrja á því að setja hveitið í eina skál en tek svo alltaf ca 100-150 gr af hveitinu frá og nota það til að hnoða með (og oft þarf ekki allt þetta hveiti).  Síðan set ég restina af þurrefnunum í eina skál og vökvann + gerið í eina skál.
 
Athugið að til að gerið “deyji” ekki þarf það að fara út í volga mjólkur/smjörblönduna. Því er gott að bræða smjörið og hella því út í mjólkina og setja svo gerið út í. Í þessu tilviki þarf mjólkin annaðhvort að vera volg þegar smjörið er sett út í eða það þarf að taka hluta af mjólkinni og setja smjörið út í þann hluta því þetta er svo mikið af mjólk. Ef smjörið er sett út í alla mjólkina þá kólnar það alveg og verður kekkjótt.
 
 
Síðan blanda ég þurrefnunum saman og helli vökvanum út í. Svo er bara að hnoða. Ég leyfi deiginu að hefast í ca 30 min á volgum stað.
 
 
Síðan flet ég það út og set pizzasósu, ost og krydd á deigið.
 
 
Þá er bara að rúlla þessu upp, skera, setja á bökunarplötu og inn í ofn!
 
 
Ég bakaði mína snúða á 180°C í 17 min.
 
 
Svo bar ég þá fram volga í skál með þessari yndislega sumarlegu servíettu sem ég fékk í IKEA! Mmmmm!
 
***

No comments: