Guðrún vinkona mætti með þetta ofur einfalda "combó" í haustferð saumaklúbbsins og það sló svo sannarlega í gegn! Það er tiltölulega einfalt og fljótlegt að gera bæði hrökkbrauðið og túnfisksalatið - fyrir utan reyndar baksturstímann á hrökkbrauðinu (sem er um 45 min).
Uppskriftin af hrökkbrauðinu kemur af blogginu Ljúfmeti og lekkerheit sem er ótrúlega skemmtileg síða með fullt af flottum uppskriftum. Ég reyndar breyti henni aðeins þegar ég geri hana og setti það í sviga. Varðandi fræin sem eru notuð þá er hægt að nota allt sem manni dettur í hug og jafnvel þurrkaða ávexti! Túnfisksalatið er svo frá henni Guðrúnu gellu. :)
***
Fræhrökkbrauð
0,5 dl sesamfræ (rúmlega)
0,5 dl hörfræ (sleppi því mér finnst of mikið bragð)3/4 dl sólblómafræ (rúmlega)
1/4 dl graskersfræ
2 dl maísmjöl (eða spelt ef það er ekki til)0,5 dl ólífuolía
2-2,5 dl sjóðandi vatn
gróft salt, t.d. maldonsalt
rósmarín (sleppi oft því ég vil finna meira bragð af túnfisksalatinu)
Hitið ofninn í 150°. Setjið öll hráefni fyrir utan vatnið í skál og
hrærið saman. Hellið sjóðandi vatni yfir (ég nota á milli 2 og 2,5 dl)
og hrærið saman í deig. Klæðið bökunarplötu með bökunarpappír og setjið
deigið yfir. Notið sleikju og dreifið úr deiginu þannig að það fylli út í
bökunarplötuna (reynið að ná því eins þunnt og þið getið). Stráið salti
og rósmarín yfir og bakið í 45 mínútur. Ég brýt hrökkbrauðið bara í
óreglulega bita þegar það hefur kólnað en ef þið viljið fá reglulegri
hrökkbrauðssneiðar þá mæli ég með að þið skerið það með pizzaskera áður
en það fer í ofninn.
***
Létt túnfisksalat
4 egg - harðsoðin
1 lítil dós túnfiskur í vatni
1/4 meðalstór rauðlaukur
5 kúfaðar msk kotasæla (set alltaf bara 1 litla dós)
1/2 rauð paprika
4 msk gular baunir (ég set töluvert meira því ég elska gular!)
1/4 tsk aromat
Kryddað með svörtum pipar og season all
Allt sett í fallega skál og blandað saman.
***
Verði ykkur svo bara að góðu! :)
***
No comments:
Post a Comment